Saturday, August 17, 2013

LKL Lasagne

Ég ákvað að prufa að skella í lasagne í gær. Mig hefur lengi langað að prufa uppskrift þar sem súkkíní er skipt út fyrir pasta en aldrei lagt í það. 
Ég var svo viss um að það væri mikið vesen og myndi ekki smakkast vel. 
Það kom því skemmtilega á óvart þegar ég smakkaði þennan rétt. 
Ég er ekki frá því að mér finnist það betra en þetta venjulega. Uppskriftin er svona sirka eins og ég skrifa hana en ég nota til dæmis aldrei mæliskeiðar þegar ég krydda mat heldur smakka ég hann til og spila bara eftir því. Ef þið eruð óörugg með kryddið er gott að miða við 1 tsk af hvoru til að byrja með :) 




Það sem þarf:

- 1 Súkkíní
- Nautahakk, ca 500 grömm (passið að lesa á umbúðirnar og kaupa hreint hakk)
- Hvítlaukur eða hvítlaukskrydd (ég gleymdi að kaupa hvítlauk svo ég notaði hvítlauks flögur og krydd)
- 2 msk rjómaostur
- Sykurlaus tómatsósa eða tómatar úr dós. Ég var með sósuna frá Walden Farms. Ráðið hversu mikið, prufið bara að byrja á 2-3 dl og sjá svo til
- 2-3 msk af tómat pure
- 1 dl af rjóma (sirka)
- Rifinn ostur til að setja ofaná
- 3-4 msk af Parmesan dufti eða osti (ekki nauðsynlegt en mjög gott)

Kryddið sem ég notaði var svona:

- Oregano
- Laukduft
- Hvítlauksduft
- Chilli duft (bara smá)
- Herbamare
- Salt og pipar ef þarf (geri það í lokinn þegar ég hef smakkað til)

Lasagne plöturnar:

Byrjið á því að skera súkkíní í sneiðar og leggja á pappír með slatta af salti. Leyfið þessu að standa í a.m.k. hálftíma. Þurrkið vel af þegar þetta er tilbúið. Reynið að hafa þetta ekki blautt.

Hakksósan:

Steikið hakkið með smá olíu ásamt hvítlauk og ef þið ákveðið að bæta grænmeti við setjið það með. Kryddið eins og þið viljið hafa það. Þegar hakkið er orðið steikt bætið við tómat pure, tómatsósunni og rjómaostinum. Leyfið þessu að malla og hrærið þetta vel saman í ca 5 mín á lágum hita. 

Bætið svo við rjóma og parmesan ostinum og smakkið til. Bætið við kryddi og salti og pipar ef ykkur finnst vanta meira bragð. 


Takið eldfast mót og byrjið á því að setja smá hakksósu, þar ofaná setjið þið súkkíní sneiðarnar, ofan á það fer svo hakksósan aftur og svo koll af kolli. 

Stráið rifnum osti yfir og setjið smá Oregano ofan á ostinn.

Hitið við 200° þar til osturinn er orðinn fallega gylltur.







Ég mæli með að þið berið þetta fram með fersku salati og/eða hvítlauksbrauðinu sem þið finnið hér til hliðar :) 






No comments:

Post a Comment