Áður en ég kem með uppskrift af pizzunni sem ég var með í kvöldmatinn langar mig að deila með ykkur hindberja og sítrónu límonaði sem ég prufaði að gera í gær.
|
Algjört nammi þessi! :) |
Hindberja og sítrónu íste:
Þessi drykkur er hrikalega svalandi og góður. Ef þú bætir
við muldum klökum og rommi eða vodka ertu líka komin með fullkominn low carb kokteil
sem þú getur drukkið án samvisku :)
Það sem þarf:
- 1 L af köldu vatni
- Sætuefni eftir smekk. Ég var með 1 msk af Sukrin Gold og 1 lítið bréf af Stevia frá Now (1 gramm)
- Hálf sítróna, bæði safinn og bátarnir
- Lúka af frosnum hindberjum (má auðvitað hafa meira eða minna)
Það eina sem þarf að gera er að setja 1 L af ísköldu vatni í
könnu eða flösku, setja Stevíu og Sukrin Gold ofaní. Hér getur þú stjórnað
hversu sætt/súrt þetta á að vera. Ég setti eitt lítið Stevíu bréf frá Now sem
er 1g. og svo eina matskeið af Sukrin Gold. Síðan skar ég niður hálfa sítrónu
og bæði kreisti ofaní og setti bátana í ásamt lúku af frosnum hindberjum. Það
væri líka hægt að nota Stevíu dropa með bragði, eins og til dæmis sítrónu eða
berja dropa en ég átti þá ekki til.
Gott er að blanda þetta nokkrum tímum áður en borið fram en þetta er samt sem áður mjög gott bara strax. Bragðið verður hins vegar mun
meira þegar þetta hefur staðið í ísskáp í smá stund. Ég blandaði þetta til
dæmis áður en ég fór að sofa og drakk svo daginn eftir. Ef þetta er blandað í flösku með loki er þetta mjög gott í alveg 2-3 daga inni í ísskáp.
Þeir sem vilja ekki fá hindberjabita uppí sig geta sigtað
þetta áður en þessu er hellt í glas :)
Þetta íste er frábær sumardrykkur en þar sem sumarið er ekki
enn komið og það er kominn ágúst ætla ég að njóta þess að sötra á fallegum
kokteilum allt árið ;)
Mig langaði að hafa einhverja djúsí pizzu í kvöldmatinn svo ég ákvað að prufa mig áfram með eina uppskrift. Hún kom skemmtilega á óvart og var bara mjög góð. Pizzan var alveg mátulega ,,krönsí" og já, bara fullkomin! Ég setti pepperoni, ananas og piparost á hana. Sumir leyfa sér ekki ananas á þessu mataræði en það þarf bara að prufa sig áfram og finna það álegg sem hentar manni best.
Lágkolvetna pizzan:
Það sem þarf:
- 3 dl. rifinn ostur. Ég var með Mozzarella.
- 3 egg.
- 1 dl. Rifinn Parmesan eða duft (má sleppa)
- 1 tsk. þurrkaðar chilli flögur eða bara chilli duft
- 1/2 Herbamare krydd
- 1 tsk. hvítlaukskrydd
- 1-2 tsk. Oregano
Ofninn hitaður í ca 180°.
Þessu öllu var hrært saman í skál
|
Allt komið í skálina |
Því næst var botninn smurður á bökunarpappír og passa að hafa allt frekar jafnt og endana ekki þynnri en miðjuna.
Síðan var pizzan forbökuð við ca 180°þar til hún var orðin fallega gyllt.
|
Hér er botninn kominn út og tilbúinn fyrir áleggið |
Þegar pizzabotninn er búinn að forbakast er álegg, sósa og ostur sett á eftir smekk og aftur inní ofn þar til osturinn er bráðinn.
|
Pizzan tilbúin |
|
Æðislega góð pizza |
Þessi kvöldmatur var mjög fljótlegur í undirbúningi og mjög saðsamur og góður. Eftir matinn var ég svo með kirsuberja skyr/rjóma bombu með kókos, hnetum og fleira. Deili þeirri uppskrift með ykkur fljótlega en hér kemur smá sýnishorn af þessum yndislega eftirrétti (sem má nú reyndar líka borða í morgunmat, eða bara hvenær sem er)
|
Hrikalega gott! |