Monday, October 14, 2013

Súkkulaði prótein skonsur/pönnsur

Mjög einfaldar og fljótlegar súkkulaðiprótein skonsur/pönnsur. Ég notaði Nectar súkkulaði trufflu prótein og var bara með einn lítinn poka sem ég keypti til að prufa. 



Uppskriftin er svona:

1 lítill poki af súkkulaði og trufflu próteini (má velja annað bragð)
1 egg
1 msk af Torani sírópi með english toffee bragði (má sleppa eða setja aðra sætu)
1/2 tsk husk (má setja minna eða jafnvel sleppa ef það er verið að leitast eftir blautri pönnuköku en mér fannst þetta mjög gott að auðvelt að steikja þar sem þær héldust fullkomlega saman án þess að brotna)
Nokkur korn af hreinum kanil

Öllu hrært saman og steikt á pönnu með kókosolíu

Svakalega gott að borða með pönnukökusírópinu frá Walden Farms og þeyttum rjóma en það er líka hægt að borða þetta með hvaða áleggi sem er :) 



Friday, October 4, 2013

Hnetusmjörs nammi

Þetta hnetusmjörs nammi er guðdómlega gott og ekki skemmir fyrir hversu einfalt það er!  




Takið hreint hnetusmjör og setjið í doppur á bökunarpappír og inn í frysti. Má setja í box með loki en ég setti bara bökunarpappír undir og yfir.

Fryst í amk klukkutíma, ég frysti í 2 daga en það var bara útaf því ég gleymdi þessu.  

Bræddu Balance mjólkursúkkulaði og þegar það er bráðið hrærir þú 1 tsk af kókosolíu útí. 

Hjúpaðu hnetusmjörs doppurnar með súkkulaðinu og settu aftur í frysti í amk 30 mín.

Geymis í frysti eða kæli :) 



Thursday, September 19, 2013

Karamellu skyrkaka

Þessi uppskrift er ekki stór en mjög mettandi. Ég var með svona miðlungs stórt eldfast mót fyrir hana og hún er fyrir svona 4-5 manns.



Botn:

4 stórar msk af smjöri og 1 msk af kókosolíu brætt í potti
1 dl af möndlumjöli og 1 dl af kókos bætt útá
1 msk af sukrin gold bætt við í pottinn
1 msk af torani english toffee síróp sett útí ásamt ½-1 tsk af kanil
Grófskornar pecan hnetur settar útí, ca 1 lúka en má vera meira

Smurt í eldfast mót og bakað við 180 gr. Í 5-10 mín, passa að brenna ekki.
Kælið botninn áður en skyrblandan fer ofaná.

Skyr fyllingin:

4 stórar msk af skyri hrærðar saman með 1 msk af karamellu sírópi frá Walden Farms og 1 msk af English toffee sírópi frá Torani
Ca 250 ml af þeyttum rjóma hrært varlega saman við.
Skyrblandan fer ofaná kældan botninn og aftur inn í ísskáp.

Karamellu toppur:

1 msk af smjöri, 1-2 msk af sukrin gold og 1 msk af rjóma hitað í potti og látið malla í smá stund.
Látið kólna léttilega og hellið yfir skyrblönduna.

Gott er að dreifa úr karamellu sósunni með sleif svo hún blandist eilítið saman við skyrið.





Wednesday, September 18, 2013

Bounty kaka

Hér kemur uppskrift af Bounty köku sem ég gerði um daginn. Hún er svakalega einföld og fljótleg og ekki skemmir fyrir hversu bragðgóð hún er :)




3 msk kókosolía
1 dl Sukrin eða annað sætuefni (megið setja minna eða meira, getið smakkað til)
1 dl rjómi + 1 dl í kremið
1 dl kókosmjólk
200 gr. Kókosmjöl
100 gr. Brætt dökkt súkkulaði (ég var með 85%)
1 tsk vanilludropar

Hitið olíuna, kókosmjólkina, rjómann, kókosmjölið og vanilludropana í potti í smá stund.

Hellið í form og setjið í frysti meðan þið útbúið súkkulaðifyllinguna.

Bræðið súkkulaðiði og þegar það er bráðið hellið ca 1 dl af rjóma útí ásamt smá sætu ef súkkulaðið er rammt. Ef þetta er of þykkt bætið smá rjóma við.

Takið kókosblönduna úr frysti og hellið súkkulaðinu yfir. Setjið í kæli þar til súkkulaðið er orðið þykkt.


Það er einnig hægt að búa til Bounty kúlur eða stykki úr sama innihaldsefni nema þá setjið þið kókosblönduna í skál, kælið í klukkustund og mótið svo kúlur og dýfið í bráðið súkkulaði. 




Sunday, September 15, 2013

Öðruvísi blómkálssúpa

Ég bjó til blómkálssúpu um daginn sem er ekki þessi týpíska hvíta súpa heldur breytti ég henni í einhvers konar bragðmikla súpu með indverskum keim. Það er kanill og karrý í henni sem gerir hana einstaklega bragðgóða. Ég bar hana fram með LKL brauði úr Okkar bakarí.





- 250 gr. af frosnu blómkáli (eða fersku)
- Paprika skorin í strimla
- 2 hvítlauksgeirar
- 500-600 ml af vatni
- ein dós af kókosmjólk
- 2 súputeningar
- 1 msk af smjöri og 1 af kókosolíu
- rjómi eftir smekk
- 2 msk af rjómaosti
- 1 dl af rifnum osti (valfrjálst, ég átti bara smá afgang og vildi þykkja hana aðeins meira)
- 1 tsk af Karrý
- 1/2 tsk af kanil
- 1 tsk chilli krydd
- 1 tsk kóríander krydd
- 1 tsk cumin krydd
- 1 tsk herbamare
- 1 tsk hvítlaukskrydd
- salt og pipar

Byrjum á því að steikja blómkálið, paprikuna og hvítlaukinn uppúr 1 tsk af smjöri og 1 af kókosolíu. Þegar þetta er orðið mjúkt bætið við vatni, súputening og kókosmjólkinni.

Leyfið þessu að malla í ca 10 mínútúr og bætið þá við rjómaostinum og kryddinu. Þið getið stjórnað hversu bragðmikil súpan er með kryddinu og bætt við ef ykkur finnst vanta meira bragð. 

Þegar súpan er búin að sjóða í svona 15 mínútur bætið við rjóma eftir smekk (ég setti 1-2 dl) og berið fram. 

Til að gera hana fallegri er flott að setja smá þeyttan rjóma þegar súpan er komin í skálina :) 




Ef súpan er of þykk er um að gera að bæta við smá vatni eða jafnvel rjóma þegar hún er komin af hellunni. 

Næst mun ég deila með ykkur uppskrift af Bounty köku sem ég gerði um daginn. Hún var svakalega góð :) 


 

Thursday, September 5, 2013

Lúxus kaffidrykkur

Ég hef aldrei verið hrifin af kaffi nema þegar það er í kremi eða einhverju nammi. Ég prufaði að búa til einhvers konar ískaffi og er komin með æði fyrir því. Mjög þægilegt að útbúa kvöldið áður og geyma inní ísskáp og taka svo með í skólann :)





- Það eru engin sérstök hlutföll en ég helli uppá instant kaffi (er ekki orðin nógu sjóuð í kaffimálunum enn). Blanda því saman við karamellusósuna frá walden farms og svo english toffee sírópið.

- Helli í hrisstiglas og bæti við rjóma og pínu kanil. Ég set svolítið mikinn rjóma þar sem ég er enn að venjast kaffibragðinu en þeir sem eru vanir hafa þetta bara eins sterkt og þeir vilja. Getið byrjað á að setja  1 msk af hvoru sírópi og 1 dl af rjóma.

- Hrisstið þetta saman og kælið. Ef þið eruð fyrir fínerí eins og ég er voða gott að sprauta smá þeyttum rjóma yfir ;) 



Wednesday, September 4, 2013

Kjúklinganúðlur

Ég keypti Slim Núðlur í Nettó og ákvað að prufa þær. Þær eru ekki eins og venjulegar núðlur á bragðið og áferðin er svolítið öðruvísi, enda ekki úr fullt af hveiti og óhollustu :)



Uppskriftin er fyrir svona 4 en núðlupakkinn er fyrir 1-2. Ég var með venjulegar núðlur fyrir gikkina og henti þeim saman með kjúkling áður en ég skellti Slim núðlunum á pönnuna.

- 4 kjúklingabringur skornar í strimla eða bita
- púrrulaukur
- ca 1/2 - 1 papríka
- jafn mikið af rifnum kúrbít
- 1 dl Tamari sósa
- 1 pk Slim núðlur (einn og hálfur til 2 ef öll uppskriftin er notuð fyrir einungis Slim núðlurnar)
- 3 egg (valfrjálst)
- 2 hvítlauksrif
- 1 tsk chilli duft
- 1 tsk herbamare 
- 1 tsk engifer (ferskt rifið eða duft)
- 1/2 tsk chilli flögur (valfrjálst)
- Salt og pipar eftir smekk ( Tamari sósan er sölt svo ekki setja salt fyrr en búið er að smakka til)
- Kókosolía til steikingar





- Byrjið á því að setja Slim núðlurnar í sigti og láta vatn renna á þær. Ég lét vatnið renna á meðan ég steikti grænmetið og kjúklinginn.

- Skerið púrrulaukinn, paprikuna og rífið kúrbítinn. Steikið uppúr kókoslíu og kryddið með herbamare, chilli dufti og engifer. Bætið hvítlauknum við og leyfið þessu að mýkjast. - Takið svo til hliðar.

- Skerið kjúklinginn í strimla og steikið. Kryddið með chilli flögum og pipar. 

- Þegar kjúklingurinn er steiktur bætið grænmetinu útá ásamt 1 dl af Tamari sósu og leyfið að malla.
Smakkið til að athugið hvort það þurfi meira krydd eða salt.

- Kreistið núðlurnar vel og setjið á pönnuna ásamt eggjunum og leyfið að malla í smá stund.




Berið fram og njótið! :) 

Saturday, August 24, 2013

Pizzumöffins

Fyrir þá sem eru hrifnir af eggjum og osti er þetta klárlega málið ef ykkur vantar tilbreytingu í þessa týpísku ommilettu. 
Ég bjó til pizzumöffins og setti í hana pepperoni, ost, egg, krydd og sósu. Þetta var rosalega gott á bragðið og mjög fljótlegt. Úr þessari uppskrift fékk ég 5 stk. af múffum.



Það sem vantar:

- 3 egg, hrærð saman með gaffli
- 3 dl rifinn ostur. Ég var bara með heimilisost með 26% fitu
- Niðurskorið pepperoni. Ég var með svona 4 stk. Þið getið sett meira eða jafnvel eitthvað annað eins og skinku, sveppi og fleira
- Sykurlaus pizzusósa
- 1 tsk Oregano
- 1 tsk hvítlaukskrydd
- Salt og pipar

Hrærið eggin með gaffli og bætið öllu nema pizzasósunni útí. Smyrjið muffins form eða setjið 1 sneið af pepperoni í botninn til að þetta festist ekki við. Hellið deiginu í hálft formið, setjið þá smá pizzasósu ofaná deigið og setjið svo deig yfir sósuna. 

Bakist við 180° í ca 15 mín eða þar til þetta er orðið fallega gyllt.

Hér er formið orðið hálft og þá fer pizzasósan yfir, síðan fer meira deig ofaná

Þær falla smá þegar þær eru teknar út




Verði ykkur að góðu! :) 





Thursday, August 22, 2013

Mjög auðvelt Super nachos!

Við Svenni ákváðum að vera með burrido í matinn í kvöld og ég ætlaði upphaflega að prufa lágkolvetna tortillur fyrir mig þar sem Svenni borðar bara þessar keyptu. Síðan var ég í tímaþröng og svona frekar löt svo ég ákvað að búa mér til super nachos í staðinn. 
Ég bjó því til flögur úr osti og kryddi og setti síðan allt meðlætið ofaná.


Þetta er mjög einfalt og í rauninni engin uppskrift nema bara:

Stráður rifnum osti á ofnplötu og kryddaðu með salti, hvítlaukskryddi, cumin og chilli. (Mátt auðvitað krydda eins og þú vilt og jafnvel strá smá parmesan yfir). 
Settu þetta inn í 180° heitan ofn þar til osturinn er orðinn gylltur. Gott að stilla á grillið á ofninum ef það er í boði síðustu mínúturnar.

Taktu þetta úr úr ofninum og skerðu strax. Leyfðu þessu að kólna og verða krispí. Ef þið eruð óþolinmóð er hægt að henda þessu inn í ísskáp í nokkrar mínútur. 

Setjið síðan ykkar uppáhald ofaná flögurnar ásamt sósu og osti. Ég var með nautahakk, ost, gúrku, salsa sósu og sýrðan rjóma. Það er einnig rosalega gott að vera með ferskan kóríander og guacamole. 







Mig langar að deila með ykkur ostaskál sem ég gerði fyrir nokkrum mánuðum í leiðinni þar sem hún er búin til úr sama hráefni nema látin harða öðruvísi. 




Eini munurinn á þessari skál er sá að þegar þið stráið rifnum osti á bökunarpappírinn búið þá til hringi úr því. Þegar osturinn er orðinn ljósbrúnn er hann tekinn út, látinn standa í 5 mínútur og svo tekinn af pappírnum og settur ofaná glas og látinn harðna svoleiðis. 

Í þessari skál var ég með nautahakk sem var með chilli sósu, sýrðan rjóma, guacamole og svo ferskan kóríander. Þetta var alveg hrikalega gott! 

Wednesday, August 21, 2013

Ostafrækex

Ég bakaði mjög gott hrökkbrauð í dag. Borðaði það með heimagerðu túnfisksalati og þetta var æðislegt. 
Hér kemur uppskriftin:




Það sem þarf:

- 1 dl sesam fræ
- 1/2 dl graskersfræ
- 1/2 dl fræblanda sem var með sólkjarnafræjum, graskersfræjum og furuhnetum
- 1 dl rifinn ostur
- 1/2 dl rifinn mexíkó ostur
- 1 egg
- 1-2 msk kókosolía (fljótandi)
- 1 tsk salt (eða meira ef þið viljið það vel salt)
- 1/2 tsk hvítlaukskrydd




Öllu nema hvítlaukskryddinu blandað saman í skál og sett á smurðan bökunarpappír. Annar smurður pappír settur ofaná og flatt vel út með kökukefli. 
Mér finnst rosalega gott að smyrja pappírinn með kókosolíu. 
Þegar þetta er orðið útflatt er smá hvítlaukskryddi stráð yfir.
Gott er að ýta aðeins meðfram köntunum með skeið svo endarnir séu ekki of þunnir og þar af leiðandi brenni.

Hrökkbrauðið fyrir bökun


Bakað við 150° í 20 mín. Þá er þetta tekið út og skorið í hæfilega bita, snúið við á plötunni og bakað áfram við 100° í 20 mínútur í viðbót. 



Sunday, August 18, 2013

Karamellu möndlur

Mig vantaði eitthvað gott snarl til að narta í svo ég ákvað að prufa að gera einhvers konar karamellaðar möndlur. Það er mjög einfalt að undirbúa þessar og tekur enga stund. Möndlurnar eru alveg ótrúlega góðar á bragðið og minna mann helst á jólin. Ilmurinn sem kemur á meðan þær grillast í ofninum er mjög góður og jólalegur :) 




Það sem þarf:


- 200 gr. af möndlum
- 1 eggjahvíta- 5 msk af sukrin gold
- 1/4 tsk salt
-1/2 tsk kanill

Þessu er öllu hrært saman í skál og sett á bökunarplötu. Ég var með álpappír undir og það er líka hægt að nota bökunarpappír. Það þarf að dreifa vel úr þessu á plötunni.


Bakað við 120° í ca klukkustund. Gott er að hræra í blöndunni á ca 15 mín. fresti svo þær brenni ekki við.
Ef þið bakið þetta á álpappír mæli ég með að taka þær strax af honum og færa yfir á disk svo þær festist ekki við, eins og gerðist næstum hjá mér ;) 





Saturday, August 17, 2013

LKL Lasagne

Ég ákvað að prufa að skella í lasagne í gær. Mig hefur lengi langað að prufa uppskrift þar sem súkkíní er skipt út fyrir pasta en aldrei lagt í það. 
Ég var svo viss um að það væri mikið vesen og myndi ekki smakkast vel. 
Það kom því skemmtilega á óvart þegar ég smakkaði þennan rétt. 
Ég er ekki frá því að mér finnist það betra en þetta venjulega. Uppskriftin er svona sirka eins og ég skrifa hana en ég nota til dæmis aldrei mæliskeiðar þegar ég krydda mat heldur smakka ég hann til og spila bara eftir því. Ef þið eruð óörugg með kryddið er gott að miða við 1 tsk af hvoru til að byrja með :) 




Það sem þarf:

- 1 Súkkíní
- Nautahakk, ca 500 grömm (passið að lesa á umbúðirnar og kaupa hreint hakk)
- Hvítlaukur eða hvítlaukskrydd (ég gleymdi að kaupa hvítlauk svo ég notaði hvítlauks flögur og krydd)
- 2 msk rjómaostur
- Sykurlaus tómatsósa eða tómatar úr dós. Ég var með sósuna frá Walden Farms. Ráðið hversu mikið, prufið bara að byrja á 2-3 dl og sjá svo til
- 2-3 msk af tómat pure
- 1 dl af rjóma (sirka)
- Rifinn ostur til að setja ofaná
- 3-4 msk af Parmesan dufti eða osti (ekki nauðsynlegt en mjög gott)

Kryddið sem ég notaði var svona:

- Oregano
- Laukduft
- Hvítlauksduft
- Chilli duft (bara smá)
- Herbamare
- Salt og pipar ef þarf (geri það í lokinn þegar ég hef smakkað til)

Lasagne plöturnar:

Byrjið á því að skera súkkíní í sneiðar og leggja á pappír með slatta af salti. Leyfið þessu að standa í a.m.k. hálftíma. Þurrkið vel af þegar þetta er tilbúið. Reynið að hafa þetta ekki blautt.

Hakksósan:

Steikið hakkið með smá olíu ásamt hvítlauk og ef þið ákveðið að bæta grænmeti við setjið það með. Kryddið eins og þið viljið hafa það. Þegar hakkið er orðið steikt bætið við tómat pure, tómatsósunni og rjómaostinum. Leyfið þessu að malla og hrærið þetta vel saman í ca 5 mín á lágum hita. 

Bætið svo við rjóma og parmesan ostinum og smakkið til. Bætið við kryddi og salti og pipar ef ykkur finnst vanta meira bragð. 


Takið eldfast mót og byrjið á því að setja smá hakksósu, þar ofaná setjið þið súkkíní sneiðarnar, ofan á það fer svo hakksósan aftur og svo koll af kolli. 

Stráið rifnum osti yfir og setjið smá Oregano ofan á ostinn.

Hitið við 200° þar til osturinn er orðinn fallega gylltur.







Ég mæli með að þið berið þetta fram með fersku salati og/eða hvítlauksbrauðinu sem þið finnið hér til hliðar :) 






Tuesday, August 13, 2013

Dásamlegur plokkfiskur

Mig hefur lengi langað í plokkfisk en þar sem hann er stútfullur af kolvetnum hef ég ekki látið það eftir mér. Ég ákvað svo í kvöld að prufa LKL útgáfu og hann kom svo sannarlega á óvart. Mér finnst þessi mun betri heldur en þessi týpíski með kartöflum og hveiti. 
Ég mæli eindregið með að prufið þennan. 






Það sem þarf:

- 6 fiskiflök (ég var með þorsk og flökin voru ekki stór).
- 1 Laukur smátt skorinn.
- Ca 5 lúkur af blómkáli (ég var með frosið blómkál og þetta var svona 200-250 gr.).
- 2 Msk. Rjómaostur.
- 2 Msk. Smjör + 2 msk eftir að allt er komið í pottinn.
- Rjómi til að þynna
- Rifinn ostur
- 1/5-1 tsk. Karrý.
- 1/5-1 Herbamare + smá krydd yfir fiskinn þegar hann er gufusoðinn.
- 1/5-1 Hvítlaukskrydd.
- 1 tsk. Lauk krydd.
- Pipar. Ég set frekar mikið af honum en þið ráðið hversu mikið þið viljið. 
- Smá salt (valfrjálst)

Byrjum á því að strá smá Herbamare yfir fiskinn og gufusjóða hann.
Því næst er laukurinn steiktur uppúr 1 msk af smjöri.
Þegar laukurinn er orðinn mjúkur bætið þið blómkálinu við og bætið við 1 msk af smjöri.
Kryddið þetta með karrý, Herbamare, hvítlaukskryddi, lauk kryddinu og pipar. 
Þegar blómkálið er orðið mjúkt bætið þið rjómaostinum við og þarnæst gufusoðna fisknum. 
Hrærið þetta vel svo fiskurinn molni niður með lauknum og blómkálinu.
Bætið við smá rjóma til þess að þetta verði örlítið þynnra og saltið og piprið eftir smekk. 

Færið plokkfiskinn yfir í eldfast mót, stráið osti yfir og bakið inni í 180° heitum ofni þar til osturinn er bráðinn. 

Ég bætti svo smá smjöri við fiskinn þegar hann var kominn á diskinn til að gera hann meira djúsí, en ég elska smjör ;) 



Mér finnst gott að setja smá pipar áður en ég set rifna ostinn yfir







Verði ykkur að góðu! :) 



Alexander borðar ekki grænmeti en hann tók ekkert eftir blómkálinu og fannst þetta rosa gott! :) 






Sunday, August 11, 2013

Grilluð samloka

Það sem ég hef stundum saknað á þessu mataræði er grilluð samloka með fullt af osti. Ég elska ost :) 

Ég ákvað að prufa að skella í einvers konar brauð þar sem ég byrjaði á að skella deiginu í samlokugrillið og svo í örbylgjuna aðeins, setti álegg og aftur á grillið. Útkoman var mjög góð. Samlokan var alveg krispí og bragðgóð. Þetta tók enga stund, en uppskriftin er kannski ekki fullkomlega nákvæm heldur verður maður aðeins að prufa sig áfram. Deigið á að vera svona svipað og þykkur hafragrautur og það þarf alveg að smyrja því á grillið til að byrja með :) 




Það sem þarf: 

- 2 Msk. Möndlumjöl.
- 1 Msk. Ground Flax (hörfræmjöl).
- 1 egg.
- Ca 1 dl. Rifinn ostur
- 2 Msk. Sesam fræ.
- 2-3 Msk. rjómi.
- 1-2 Tsk. Sukrin Gold. (Valfrjálst)
- Salt eftir smekk.
- Vatn til að þynna ef þetta er of þykkt.


Þið byrjið á því að blanda þessu öllu saman og smyrja á heitt grillið (2 sneiðar). Það gæti þurft að hafa svolítið fyrir þessu en ekkert mikið mál. 

Þegar brauðið er orðið þannig að þú getir lyft allri sneiðinni upp án þess að það detti allt í sundur tekur þú það af, setur á disk og inn í örbylgju í 2-3 mín. 
Á þessu stigi er brauðið ekkert sérstaklega girnilegt. Ég var alveg viss um að hafa klúðrað þessu þarna til dæmis! :) En þegar það er tekið úr örbylgjunni er álegg sett á. 
Ég var með fullt af osti og pepperoni frá Goða (sykurlaust). 
Samlokunni er svo lokað og skellt aftur í grillið þar til það er orðið gyllt og krispí :) 
Mjög gott að hafa einhverja sósu með til að dýfa í eða jafnvel setja pizzasósu á brauðið með álegginu. 


Verði ykkur að góðu! :)