Thursday, September 19, 2013

Karamellu skyrkaka

Þessi uppskrift er ekki stór en mjög mettandi. Ég var með svona miðlungs stórt eldfast mót fyrir hana og hún er fyrir svona 4-5 manns.



Botn:

4 stórar msk af smjöri og 1 msk af kókosolíu brætt í potti
1 dl af möndlumjöli og 1 dl af kókos bætt útá
1 msk af sukrin gold bætt við í pottinn
1 msk af torani english toffee síróp sett útí ásamt ½-1 tsk af kanil
Grófskornar pecan hnetur settar útí, ca 1 lúka en má vera meira

Smurt í eldfast mót og bakað við 180 gr. Í 5-10 mín, passa að brenna ekki.
Kælið botninn áður en skyrblandan fer ofaná.

Skyr fyllingin:

4 stórar msk af skyri hrærðar saman með 1 msk af karamellu sírópi frá Walden Farms og 1 msk af English toffee sírópi frá Torani
Ca 250 ml af þeyttum rjóma hrært varlega saman við.
Skyrblandan fer ofaná kældan botninn og aftur inn í ísskáp.

Karamellu toppur:

1 msk af smjöri, 1-2 msk af sukrin gold og 1 msk af rjóma hitað í potti og látið malla í smá stund.
Látið kólna léttilega og hellið yfir skyrblönduna.

Gott er að dreifa úr karamellu sósunni með sleif svo hún blandist eilítið saman við skyrið.





Wednesday, September 18, 2013

Bounty kaka

Hér kemur uppskrift af Bounty köku sem ég gerði um daginn. Hún er svakalega einföld og fljótleg og ekki skemmir fyrir hversu bragðgóð hún er :)




3 msk kókosolía
1 dl Sukrin eða annað sætuefni (megið setja minna eða meira, getið smakkað til)
1 dl rjómi + 1 dl í kremið
1 dl kókosmjólk
200 gr. Kókosmjöl
100 gr. Brætt dökkt súkkulaði (ég var með 85%)
1 tsk vanilludropar

Hitið olíuna, kókosmjólkina, rjómann, kókosmjölið og vanilludropana í potti í smá stund.

Hellið í form og setjið í frysti meðan þið útbúið súkkulaðifyllinguna.

Bræðið súkkulaðiði og þegar það er bráðið hellið ca 1 dl af rjóma útí ásamt smá sætu ef súkkulaðið er rammt. Ef þetta er of þykkt bætið smá rjóma við.

Takið kókosblönduna úr frysti og hellið súkkulaðinu yfir. Setjið í kæli þar til súkkulaðið er orðið þykkt.


Það er einnig hægt að búa til Bounty kúlur eða stykki úr sama innihaldsefni nema þá setjið þið kókosblönduna í skál, kælið í klukkustund og mótið svo kúlur og dýfið í bráðið súkkulaði. 




Sunday, September 15, 2013

Öðruvísi blómkálssúpa

Ég bjó til blómkálssúpu um daginn sem er ekki þessi týpíska hvíta súpa heldur breytti ég henni í einhvers konar bragðmikla súpu með indverskum keim. Það er kanill og karrý í henni sem gerir hana einstaklega bragðgóða. Ég bar hana fram með LKL brauði úr Okkar bakarí.





- 250 gr. af frosnu blómkáli (eða fersku)
- Paprika skorin í strimla
- 2 hvítlauksgeirar
- 500-600 ml af vatni
- ein dós af kókosmjólk
- 2 súputeningar
- 1 msk af smjöri og 1 af kókosolíu
- rjómi eftir smekk
- 2 msk af rjómaosti
- 1 dl af rifnum osti (valfrjálst, ég átti bara smá afgang og vildi þykkja hana aðeins meira)
- 1 tsk af Karrý
- 1/2 tsk af kanil
- 1 tsk chilli krydd
- 1 tsk kóríander krydd
- 1 tsk cumin krydd
- 1 tsk herbamare
- 1 tsk hvítlaukskrydd
- salt og pipar

Byrjum á því að steikja blómkálið, paprikuna og hvítlaukinn uppúr 1 tsk af smjöri og 1 af kókosolíu. Þegar þetta er orðið mjúkt bætið við vatni, súputening og kókosmjólkinni.

Leyfið þessu að malla í ca 10 mínútúr og bætið þá við rjómaostinum og kryddinu. Þið getið stjórnað hversu bragðmikil súpan er með kryddinu og bætt við ef ykkur finnst vanta meira bragð. 

Þegar súpan er búin að sjóða í svona 15 mínútur bætið við rjóma eftir smekk (ég setti 1-2 dl) og berið fram. 

Til að gera hana fallegri er flott að setja smá þeyttan rjóma þegar súpan er komin í skálina :) 




Ef súpan er of þykk er um að gera að bæta við smá vatni eða jafnvel rjóma þegar hún er komin af hellunni. 

Næst mun ég deila með ykkur uppskrift af Bounty köku sem ég gerði um daginn. Hún var svakalega góð :) 


 

Thursday, September 5, 2013

Lúxus kaffidrykkur

Ég hef aldrei verið hrifin af kaffi nema þegar það er í kremi eða einhverju nammi. Ég prufaði að búa til einhvers konar ískaffi og er komin með æði fyrir því. Mjög þægilegt að útbúa kvöldið áður og geyma inní ísskáp og taka svo með í skólann :)





- Það eru engin sérstök hlutföll en ég helli uppá instant kaffi (er ekki orðin nógu sjóuð í kaffimálunum enn). Blanda því saman við karamellusósuna frá walden farms og svo english toffee sírópið.

- Helli í hrisstiglas og bæti við rjóma og pínu kanil. Ég set svolítið mikinn rjóma þar sem ég er enn að venjast kaffibragðinu en þeir sem eru vanir hafa þetta bara eins sterkt og þeir vilja. Getið byrjað á að setja  1 msk af hvoru sírópi og 1 dl af rjóma.

- Hrisstið þetta saman og kælið. Ef þið eruð fyrir fínerí eins og ég er voða gott að sprauta smá þeyttum rjóma yfir ;) 



Wednesday, September 4, 2013

Kjúklinganúðlur

Ég keypti Slim Núðlur í Nettó og ákvað að prufa þær. Þær eru ekki eins og venjulegar núðlur á bragðið og áferðin er svolítið öðruvísi, enda ekki úr fullt af hveiti og óhollustu :)



Uppskriftin er fyrir svona 4 en núðlupakkinn er fyrir 1-2. Ég var með venjulegar núðlur fyrir gikkina og henti þeim saman með kjúkling áður en ég skellti Slim núðlunum á pönnuna.

- 4 kjúklingabringur skornar í strimla eða bita
- púrrulaukur
- ca 1/2 - 1 papríka
- jafn mikið af rifnum kúrbít
- 1 dl Tamari sósa
- 1 pk Slim núðlur (einn og hálfur til 2 ef öll uppskriftin er notuð fyrir einungis Slim núðlurnar)
- 3 egg (valfrjálst)
- 2 hvítlauksrif
- 1 tsk chilli duft
- 1 tsk herbamare 
- 1 tsk engifer (ferskt rifið eða duft)
- 1/2 tsk chilli flögur (valfrjálst)
- Salt og pipar eftir smekk ( Tamari sósan er sölt svo ekki setja salt fyrr en búið er að smakka til)
- Kókosolía til steikingar





- Byrjið á því að setja Slim núðlurnar í sigti og láta vatn renna á þær. Ég lét vatnið renna á meðan ég steikti grænmetið og kjúklinginn.

- Skerið púrrulaukinn, paprikuna og rífið kúrbítinn. Steikið uppúr kókoslíu og kryddið með herbamare, chilli dufti og engifer. Bætið hvítlauknum við og leyfið þessu að mýkjast. - Takið svo til hliðar.

- Skerið kjúklinginn í strimla og steikið. Kryddið með chilli flögum og pipar. 

- Þegar kjúklingurinn er steiktur bætið grænmetinu útá ásamt 1 dl af Tamari sósu og leyfið að malla.
Smakkið til að athugið hvort það þurfi meira krydd eða salt.

- Kreistið núðlurnar vel og setjið á pönnuna ásamt eggjunum og leyfið að malla í smá stund.




Berið fram og njótið! :)